Ágrip af sögu Palestínu og Palestínumanna, í tilefni ástandsins! Frekar langt.

Frá fyrri heimsstyrjöld að stofnun Ísraels
Palestína var ásamt með öðrum löndum araba við botn Miðjarðarhafs undir stjórn Tyrkjaveldis allt frá 17. öld. Í fyrri heimsstyrjöldinni tóku arabar höndum saman við Breta gegn heimsveldi Tyrkja, tókst að binda endi á yfirráð þeirra og gerðu sér vonir um sjálfstæði. Breski liðsforinginn T.E. Lawrence („Lawrence of Arabia", 1888–1935) átti mikinn þátt í að tengja Breta sterkum böndum við forvígismenn arabískra hirðingja um allan Arabíuskagann og norður til Sýrlands, sérstaklega Feisal I af ættbálki Hashemíta. Að stríðinu loknu varð Palestína eitt af þeim löndum sem hlutu frelsi undan Tyrkjum, en án þess þó að verða sjálfstætt ríki. Abdullah prins, bróðir Feisals, varð konungur Jórdaníu, en Feisal konungur Íraks. Palestína varð „verndarsvæði“ (e. protectorate) breska heimsveldisins árið 1922, á meðan flest nágrannalöndin fengu einhvers konar sjálfstæði undir forystu uppreisnarleiðtoga úr stríðinu, þrátt fyrir talsverða íhlutun Breta og Frakka sem olli mörgum íbúum Mið-Austurlanda vonbrigðum.
Í kjölfar stofnunar síonistahreyfingarinnar undir lok 19. aldar jókst innflutingur gyðinga til Palestínu, ásamt með umfangsmiklum jarðakaupum þeirra og auknum áhrifum í samfélaginu. Síonistahreyfingin var stofnuð með því markmiði að finna gyðingum „þjóðarheimili“, í anda evrópskrar þjóðernishyggju sem lagði mikið upp úr þjóðríkinu sem stjórnarfarslega sjálfstæðri einingu. Um leið var síonistahreyfingin svar gyðinga við ofsóknum sem tekið höfðu að láta á sér kræla með ýmsum hætti á ný í Evrópu, eftir að gyðingar höfðu unað tiltölulega vel við sitt um nokkurt skeið. Leiðtogar hreyfingarinnar höfðu átt í samningaviðræðum við Breta um að sér yrði veittur stuðningur við stofnun ríkis gyðinga, eins og fram kom í Balfour-yfirlýsingunni frá árinu 1917. Ákvörðun Breta um þennan stuðning var ekki samræmi við loforð sem þeir höfðu þegar gefið leiðtogum araba, þegar Arabíu-Lawrence átti sem mest saman við þá að sælda. Syces-Picot samkomulagið var annað dæmi um tvískinnung nýlenduveldanna í samskiptum sínum við araba, samkomulag sem Frakkar og Bretar gerðu sín á milli um skiptingu Mið-austurlanda í áhrifasvæði hvors ríkisins um sig. Allt þetta stuðlaði að óánægju og uppþotum araba í Palestínu undir forystu leiðtoga þeirra í Jerúsalem, Hajj Amin al-Hussaini.

Átök milli allra þriggja, araba, gyðinga og Breta, leiddu smátt og smátt til aukins ofbeldis sem á fjórða áratug 20. aldar nálgaðist borgarastyrjöld í Palestínu. Bretar réðu tæpast lengur við ástandið, enda höfðu þeir misst traust bæði gyðinga og araba eftir ábyrgðarlaus loforð á báða bóga. Seinni heimsstyrjöldin hafði tvær afdrifaríkar afleiðingar fyrir Palestínu: Annars vegar að vegna ofsókna nasista jókst innflutningur gyðinga til Palestínu upp úr öllu valdi og hins vegar að heimurinn gerði sér grein fyrir því að dagar breska heimsveldisins voru taldir. Árið 1947 afsöluðu Bretar sér formlega allri ábyrgð á Palestínu og í kjölfar þess samþykktu Sameinuðu þjóðirnar að skipta skyldi landinu í tvennt; Palestínu og Ísrael, en Jerúsalem yrði undir alþjóðlegri stjórn. (Sjá ályktun SÞ um skiptingu Palestínu undir 'Samþykktir' og 'Kort'.)

Gyðingar fögnuðu samþykktinni, en al-Hussaini og Palestínumenn, ásamt leiðtogum Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands, höfnuðu henni algjörlega og lýstu yfir stríði á hendur Ísrael þegar stofnun hins nýja ríkis var formlega tilkynnt árið 1948. Ósigur arabaríkjanna í stríðinu var skammarlegur, þar sem ekki tókst að stöðva stofnun Ísraels og ríki araba í Palestínu varð að engu, en þeir sjálfur urðu að lokum verst úti: Þetta stríð orsakaði fyrstu bylgju palestínskra flóttamanna, bænda og þorpsbúa sem þurftu að flýja undan Ísraelsher og sjálfskipuðum vígasveitum ísraelskra landnema. Palestínumenn flykktust á Gaza-svæðið (sem endaði undir stjórn Egyptalands) og á svæðið sem kennt er við vesturbakka Jórdanár sem Abdullah Jórdaníukonungur innlimaði í ríki sitt. Tölur eru nokkuð á reiki um fjölda flóttamanna, en tæp milljón lætur nærri lagi.

Í hugum margra gyðinga var sjálfstæðisstríðið eins konar endurtekning á goðsögunni um Davíð og Golíat, þar sem litla Ísrael lék hlutverk Davíðs gagnvart hinum stóra og sterka Golíat, en Davíð tekst með nánast yfirnáttúrulegum hætti að verja saklausar hendur sínar. Á seinustu árum hafa sagnfræðingar dregið þessa mynd alvarlega í efa, og bent á að hugur hafi ekki fylgt máli hjá leiðtogum araba, og þeir hafi í raun unað nokkuð sáttir með sinn skerf að stríðinu loknu; bæði Jórdönum og Egyptum tókst þrátt fyrir allt að auka nokkuð við landsvæði ríkja sinna. Gyðingar hafi verið miklu skipulagðari og ákveðnari, enda raunverulegir hagsmunir í húfi fyrir þá. Palestínumenn sjálfir hafi ekki verið reiðubúnir undir stríð af þessari stærðargráðu og hafi verið upp á náð Egypta og Jórdana komnir þegar hversveitir gyðinga tóku að flæma þá á brott.

Palestínskir flóttamenn úr þessum átökum voru fyrstu fórnarlömbin í þeim hildarleik sem saga Mið-Austurlanda átti eftir að verða, eftir tiltölulega blómlegt skeið undir stjórn Tyrkja og Breta. Atburðirnir úr þessu stríði lifa ennþá miklu lífi í hugum Palestínumanna og ganga undir nafninu „hörmungarnar“ (al-Naqba). Palestínumönnum falla ekki úr minni skelfilegir atburðir á borð við fjöldamorðin í Deir Yassin, þar sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Irgun, undir forystu Menachim Begins sem síðar varð forsætisráðherra Ísraels, myrtu 250 saklausa borgara.

Þessir atburðir, sem markast annars vegar af fyrri heimsstyrjöldinni og hins vegar af sjálfstæðisstríði Ísraels, eru fyrsti kaflinn í hörmungasögu átaka Palestínumanna og Ísraela. Hér má þegar greina þau stef sem hafa alla tíð síðan leikið stóran þátt í rás atburðanna:

Tilviljanakennd og oft illa ígrunduð afskipti erlendra stórvelda af málefnum svæðisins, þar sem skammtíma- og eiginhagsmunir þeirra ráða ferðinni.
Dugleysi arabaleiðtoga í að taka málin í sínar hendur þrátt fyrir yfirlýsingar um harða afstöðu gegn Ísrael og samstöðu með Palestínumönnum.
Einlægur ásetningur Ísraela að leggja undir sig, með hervaldi ef svo bæri undir, sem mest af „Eretz Israel“, þ.e.a.s. svæðinu sem skv. Gamla Testamentinu er talið land Gyðinga: Frá Beeka-dalnum í norðri suður að Sínaí-skaga, með eystri landamæri að Dauðahafinu og ánni Jórdan.
Bjargráðaleysi Palestínumanna, sem ýmist hírast við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum, búa við fjandsamlega ríkisstjórn innan landamæra Ísraels, eða lifa við ótrygga búsetu innan landamæra nágrannaríkjanna þar sem þeir eru upp á náð innlendra valdhafa komnir.
Frá lokum seinni heimsstyrjaldar að “Svarta September”
Palestínumenn voru nú ýmist búsettir í Ísrael undir stjórn gyðinga, í Jórdaníu undir stjórn Abdullah konungs eða á Gaza-svæðinu undir stjórn Egypta. Valdataka Gamal Abdel Nassers í Egyptalandi árið 1954 varð upphafið að mikilli bylgju þjóðernisvakningar og samstöðu meðal arabaþjóða. Margir arabar litu á Nasser sem tákn arabísks stolts og baráttu gegn heimsvaldastefnu gömlu nýlenduveldanna, sem enn vildu hafa hönd í bagga með málefnum ríkja um víða veröld. Palestínumenn bundu miklar vonir við Nasser, enda lýsti hann yfir ótvíræðum stuðningi við málstað þeirra og leit ísraelska ríkisstjórnin á hann sem sinn stærsta óvin. Nasser lagði baráttu Palestínumanna lið með ýmsum hætti, m.a. með því að styrkja vopnaðar árásir þeirra yfir landamæri Egyptalands og inn í Ísrael. (Sjá kort af stöðunni eftir sjálfstæðisstríð Ísraels 1948–50.)
Árið 1956 gerðust þau tíðindi að Nasser lét þjóðnýta Súez-skurðinn, eina mikilvægustu samgönguæð heims á þessum tíma, með þeim afleiðingum að Bretar, Frakkar og Ísraelar lögðu til atlögu gegn Egyptalandi. Úr þessu varð Súez-stríðið, þar sem Nasser vann pólitískan sigur þrátt fyrir hernaðarlegan vanmátt, þegar Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin neyddu árásaraðilana þrjá til að draga sig til baka. Segja má að úrslitin í þessu stríði hafi verið táknræn fyrir hina nýju stöðu í alþjóðamálum: Bandaríkjamenn höfðu nú dregið allar klær úr gömlu nýlenduveldunum og tekið að sér hlutverk hins yfirþjóðlega valdhafa.

Þótt Palestínumenn hafi ekki verið beinir þátttakendur í Súez-stríðinu, urðu atburðirnir til þess að herða mjög á afstöðu Ísraelskra stjórnmálamanna í varnarmálum almennt, sem kom ekki síst niður á Palestínumönnum. Gæsla við vopnahléslínuna frá 1948 milli Ísraels og Jórdaníu var hert mjög og fjölmargir Palestínumenn og Jórdanir, sem gerðust sekir um að sækja yfir landamærin á heimslóðir sínar, urðu illa úti í árekstrum við ísraelska hermenn.

Á sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda tók Ísrael mjög að festa sig í sessi sem öflugasta herveldi svæðisins, m.a. með því að byggja kjarnakljúf í Dimona í Negev-eyðimörkinni með aðstoð Frakka, og umfangsmiklum vopnakaupum um heim allan. Ísraelskir diplómatar þeystust um allan heiminn í leit að stuðningi og nutu góðs af andrúmslofti Kalda stríðsins, þar sem þeir voru gerðir að fulltrúum vestursins, en Nasser leitaði til Sovétríkjanna og austurblokkarinnar.

Aukin spenna og taugatitringur urðu loks til þess að Ísraelar hófu í júní 1967 flugskeytaárásir og innrás fótgönguliðs yfir landamæri Egyptalands, í þeim tilgangi að þvinga Egypta til að slaka á ýmsum takmörkunum sem þeir höfðu sett Ísraelum um siglingar í Rauða hafinu og um Súez-skurðinn. Stríðið vatt upp á sig, Jórdanir og Sýrlendingar drógust inn í það og á endanum varð stórsigur Ísraela slíkur að her þeirra lagði undir sig allan Sínaí-skagann, vesturbakka Jórdanár, Gaza-svæðið og Gólan-hæðir í Sýrlandi, landsvæði sem samanlagt var stærra en Ísrael í upphafi stríðsins. Þetta stríð, sem nefnt var Sex daga stríðið, var réttlætt af ísraelskum stjórnvöldum sem sjálfsvarnarstríð, enda hafi Nasser ætlað að ráðast á þá. Ekkert bendir til að slík árás hafi verið í bígerð hjá Egyptum, enda má ætla að þeir hafi gert sér grein fyrir þeim hernaðarlegu yfirburðum sem Ísrael hafði og leiddu til hins mikla sigurs.

Nú hafði Ísraelum tekist að leggja undir sig nokkurn veginn alla hina fornu Palestínu. Þetta leiddi til annarar bylgju palestínskra flóttamanna, sem og gríðarlegra vonbrigða í Arabaheiminum vegna slælegrar hernaðarlegrar frammistöðu stríðsaðilanna. Hernámið á landi Palestínumanna er ólöglegt samkvæmt Genfarsáttmálanum eins og samþykkt Öryggisráðs SÞ nr. 242 frá árinu 1967 kveður skýrt á um (sjá 'Samþykktir').

Árið 1964 var stofnuninni PLO (Palestine Liberation Organisation) komið á fót, að frumkvæði Nassers Egyptalandsforseta. Stofnunin var upphaflega einungis skrifstofa undir stjórn Egyptalands, en árið 1968 gerðust þau tíðindi að Yasser Arafat, sem þá var formaður einnar stærstu hreyfingar Palestínumanna, Fatah, tók yfir formannshlutverk PLO. Fram að því hafði Fatah stundað árásir á Ísrael frá landamærum Egyptalands og staðið að útgáfu á prentefni með því markmiði að sameina Palestínumenn í baráttunni fyrir endurheimtingu heimalands síns. Arafat breytti PLO úr því að vera strengjabrúða Nassers í samtök þar sem Palestínumenn réðu sjálfir ríkjum. Undir samtökin heyrðu margvíslegar hreyfingar aðrar en Fatah, þ.á.m. PFLP (Popular Front for the Liberation of Palestine), undir forystu Georges Habash, og fleiri hópar sem margir hverjir voru mun herskárri en Arafat og fylgismenn hans. Samtökin fluttu bækistöðvar sínar til Jórdaníu.

Ýmsir hópar innan PLO, sem þá hafði höfuðstöðvar sínar í Jórdaníu, höfðu sig mikið í frammi með gíslatökum og flugránum, ekki síst áðurnefnd samtök, PFLP. Í september 1970, í kjölfar flugráns sem átti sér stað á flugvellinum í Amman, var svo komið að Abdullah konungur Jórdaníu sá sér ekki annað fært en að gera PLO útlægt úr landi sínu, enda samtökin nánast orðin eins og „ríki í ríkinu“ í landi þar sem meira en þriðjungur íbúanna kom frá Palestínu. Konungurinn kaus að flæma forystu samtakanna burt með hervaldi. Úr varð borgarastríð í Jórdaníu, sem Palestínumenn kenna við „Svarta september“ og minnast enn með biturð. Fluttist forysta PLO þá til Líbanon, þar sem margir Palestínskir flóttamenn höfðust við í búðum í suðurhluta landsins.

Í lok sjöunda áratugarins horfðust Palestínumenn í augu við þá staðreynd að allt land þeirra var nú hernumið af Ísrael, og gamlar byggðir þeirra verið teknar yfir af ísraelskum landnemum. Byggðir gyðinga tóku að rísa bæði á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu á meðan Palestínumen hírðust í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna eða í útlegð í nágrannalöndum þar sem stjórnvöld höfðu sína hentisemi með að ljá þeim ríkisborgararétt eða annan stuðning. Ekki yrði treyst á Nasser eða aðra arabaleiðtoga í baráttunni við Ísrael, heldur yrðu þeir að þróa sínar eigin aðferðir og verða bjargráða á eigin forsendum.

Frá átökum í Líbanon til fyrstu Intifada-uppreisnarinnar
PLO tók að festa sig í sessi eftir Sex daga stríðið sem málsvari palestínsku þjóðarinnar, og árið 1974 var Arafat heimilað að koma fram opinberlega sem talsmaður Palestínumanna á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem fól í sér formlega viðurkenningu. Síðan þá hefur vegur samtakanna farið vaxandi og líta nú flestöll ríki heimsins á þau sem lögmætan málsvara þjóðarinnar, eins konar útlagastjórn.
En annað borgarastríð var í uppsiglingu: Nærvera PLO í Líbanon, eftir brottreksturinn frá Jórdaníu, var ekki vel séð af öllum þar í landi, enda Líbanir klofnir í marga ólíka hópa sem mynduðu með sér viðkvæmt valdajafnvægi. Milli Palestínumanna í Líbanon og Maróníta, kristinna íbúa landsins, ríkti mikil úlfúð, ekki síst vegna þeirrar vinsemdar sem ríkti milli Ísraela og Maróníta. Ísraelar höfðu á sinni könnu áætlanir um að styðja valdarán Maróníta sem vinna myndi gegn PLO, og tryggja þeim traustan bandamann í norðri. Með þessu blönduðust bæði Palestínumenn og Ísraelar inn í flókin innanríkismál Líbanons, sem snerust um valdabaráttu milli Maróníta, annara kristinna hópa, súnní-múslima, shía-múslima og Sýrlendinga, sem áttu hagsmuna að gæta í landinu og litu á það sem verndarsvæði sitt.

Líbanon var púðurtunna sem sprakk árið 1975. Við tók linnulaust borgarastríð, með skriðdrekainnrás af hálfu Ísraels árið 1982, og stóð það allt fram á seinasta áratug 20. aldar, þegar sýrlensk leppstjórn tók við völdum í landinu. Í innrás Ísraels árið 1982 neyddust PLO-menn til að færa höfuðstöðvar sínar, enn og aftur, að þessu sinni til Túnis. Borgarastríðið í Líbanon fæddi af sér skæruliðahreyfinguna Hizbollah, sem skipuð er Palestínumönnum úr flóttamannabúðum í S-Líbanon og Líbönum sem aðhyllast shía-trú. Þeir halda enn áfram vopnaðri baráttu og afrekuðu í maí 2000 að neyða Ísraela til yfirgefa endanlega öll líbönsk landsvæði frá því í innrásinni 1982. Borgarastríðið í Líbanon skildi eftir enn fleiri ör á sálu palestínsku þjóðarinnar, með hörmungaratburðum á borð við fjöldamorðin í Sabra og Shatila flóttamannabúðunum, sem hersveitir kristinna Líbana framkvæmdu með vitund ísraelska hershöfðingjans Ariels Sharon, síðar forsætisráðherra Ísraels.

Á meðan á þessu stóð gerðust þau tíðindi að samskipti Ísraels og Egyptalands tóku að batna til muna. Árið 1974 rak Anwar Sadat, arftaki Nassers, alla sovéska sendifulltrúa úr landinu og tók upp vinsamleg samskipti við Bandaríkin. Þegar samskiptin við Bandaríkin bötnuðu tóku þau að sér að þrýsta Egyptum og Ísraelum að samningaborðinu, og leiddi það á endanum til Camp David samkomulagsins árið 1978, þar sem Egyptar viðurkenndu „tilverurétt“ Ísraels en fengu í staðinn Sínaí-skagann aftur og gátu opnað Súez-skurðinn. Þetta var mikilvægur sigur fyrir Ísrael, sem hafði nú komið fótunum undir sig hernaðarlega, efnahagslega og pólitískt. Fjárstuðningur Bandaríkjanna við landið var geypilegur og eini hernaðarlegi jafnoki Ísraels á svæðinu, Saudi-Arabía, var einnig vinveitt Bandaríkjunum.

Eftir að málefni Palestínumanna höfðu lengi staðið í skugganum af hinum margvíslegu átökum PLO á erlendri grund og málarekstri Ísraels við aðra nágranna, var svo komið árið 1987 að íbúar á hernumdu svæðunum, Gaza og Vesturbakkanum, hófu sína eigin uppreisn. Uppreisnin fékk nafnið Intifada, og fólst hún aðallega í kasti grjóts og mólotov-kokkteila að ísraelskum hermönnum, fjöldamótmælum og verkföllum. Hún var ekki skipulögð af einni hreyfingu, og var í raun og veru afar smávægileg ógn við kjarnorkuveldið Ísrael, en engu að síður kusu Ísraelar að bregðast við með harkalegum hætti. Hermenn skutu byssukúlum að unglingum og eldflaugum á hús óbreyttra borgara. Fjölmargir mótmælendur, sem og saklausir borgarar, létu lífið í þessum átökum sem stóðu allt fram á miðjan tíunda áratuginn.

Jákvæða afleiðingin af þessum átökum var þó sú að athygli heimsins tók að beinast að palestínsku fólki, frekar en palestínskum skæruliðum og stjórnmálamönnum, og má segja að samúð heimsins hafi að hluta til snúist á sveif með íbúum herteknu svæðanna. Framganga Ísraelshers þótti ofsafenginn, gegn svotil vopnlausu fólki. Forsætisráðherra Ísraels um þetta leyti var Ytchak Shamir, úr hinu hægrisinnaða Likud-bandalagi, en hann átti sér myrka fortíð sem leiðtogi hrygðjuverkasamtakanna Stern í stríðinu 1948 og var óvæginn í garð Palestínumanna.

Upphaf og endir friðarferlisins
Svo fór að Yasser Arafat og Yitchak Rabín forsætisráðherra Ísraels settust að samningaborðinu árið 1991, eftir linnulaus átök á hernumdu svæðunum. Arafat, sem framan af átti engan þátt í uppreisninni, þar sem hann hafði allan tímann aðsetur í Túnis, nýtti sér vel þetta pólitíska tækifæri og hefur síðan fest sig í sessi sem málsvari íbúa Vesturbakkans og Gaza. Eftir undirskrift Óslóarsamninganna árið 1993 flutti forysta PLO sig á Gaza-svæðið, sem nú er að miklu leyti sjálfstjórnarsvæði þess, og tók yfir stjórnsýslu í nokkrum bæjum á Vesturbakkanum. Yitchaks Rabín biðu hins vegar þau örlög að verða fyrir kúlu Ísraelsmanns úr röðum ofsatrúarmanna skömmu eftir undirritun samninganna. Í kosningunum sem á eftir fylgdu tókst Shimon Peres, eftirmanni Rabíns, ekki að sannfæra kjósendur um ágæti friðarstefnu sinnar, og sigurvegari kosninganna var Benyamin Netanyahu, leiðtogi hins hægrisinnaða Likud-bandalags. Hann hóf tafarlaust að grafa undan þeim árangri sem hafði náðst í undangengum viðræðum og skapaði vantraust hjá Palestínumönnum með því að stuðla að auknum straumi landnema inn á Vesturbakkann og herða sífellt þær kröfur sem gerðar voru til sjálfstjórnar Palestínumanna um taumhald á hryðjuverkamönnum úr röðum Hamas og Jihad, samtaka sem áttu rætur sínar í Intifada-uppreisninnni.
Ástandið hélst þó með tiltölulega kyrrum kjörum, að undanskildum uppþotum á sjálfstjórnarsvæðunum árið 1996 og fjöldamorðum af hálfu ísraelsks ofsatrúarmanns í bænum Hebron sama ár. Það var ekki fyrr en eftir kosningarnar árið 2000 að upp úr sauð. Þegar Ariel Sharon, formaður Likud-bandalagsins, heimsótti í fylgd herliðs hina heilögu Al-Aqsa mosku á musterishæðinni í Jerúsalem kom til átaka milli Palestínumanna og herliðsins og sér nú ekki fyrir endann á þeim átökum. Ekki var þó heimsókn Sharons eina ástæðan, því vonbrigði Palestínumanna með Óslóarsamningana og hvernig þau góðu fyrirheit sem þeir gáfu voru rofin í valdatíð Netanyahus eiga stærsta þáttinn. Lífsaðstæður á Gaza og Vesturbakkanum hafa ekki batnað þrátt fyrir aukin völd Arafats, og þrautir palestínsks almennings í raun hinar sömu. Heimastjórn PLO hefur ekki fært Palestínumönnum neinar raunverulegar umbætur, enda hefur enn ekki verið samið um flest af þeim grundvallaratriðum sem Óslóarsamningarnir áttu að leiða til að rætt yrði um. Ísraelski herinn vakir enn yfir hernumdu svæðunum og stjórnar öllum samgönguæðum, vatnsmannvirkjum, og það sem mestu skiptir, mestum meirihluta landsvæðisins. Nokkur hundruð þúsund ísraelskir landnema búa á tvöfalt stærra svæði en rúmar tvær milljónir Palestínumanna.

Ríkisstjórn Ehuds Barak, sem tók við af Netanyahu sem forsætisráðherra fyrir hönd Verkamannaflokksins, sprakk snemma árs 2000, enda kennt um slæman árangur við að hafa stjórn á uppreisn Palestínumanna. Við af honum tók hinn illræmdi Ariel Sharon, sá hinn sami og skipulagði innrásina í Líbanon. Hefur hann beitt sér fyrir æ harðari refsiaðgerðum gegn Palestínusku þjóðinni, þar sem hernum er hiklaust beitt gegn saklausum borgurum til að refsa fyrir hryðjuverk Hamas og grjótkast barna sem eru hvorki á ábyrgð þjóðfélagins í heild né heimastjórnar Arafats. Hert ítök Ísraelshers á hernumdu svæðunum eru réttlætt sem viðbragð við seinni Intifada-uppreisn Palestínumanna, en ljóst er að þau þjóna einkum því langtímamarkmiði að gera allt daglegt líf Palestínumanna svo óbærilegt undir hernáminu að þeir láti hrekjast á brott. Bygging aðskilnaðarmúrsins á Vesturbakkanum, sem nú er vel á veg komin, er skýrasta dæmið um þetta.

Viðar Þorsteinsson tók saman


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband